Samfélags­ábyrgð

Samfélagsskýrsla

Brim gefur nú út samfélagsskýrslu í þriðja sinn sem er ársskýrsla um ófjárhagslega þætti starfseminnar. Samfélagsskýrsla Brims er gefin út samkvæmt viðmiðum GRI Standard (e. Global Reporting Initiative, GRI100-400).

Stefna félagsins í samfélagsábyrgð tekur á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum þáttum í starfseminni og endurspeglar ábyrgð félagsins sem þátttakanda í íslensku efnahagslífi og samfélagi.

Meðal umfjöllunarefna skýrslunnar eru helstu breytingar á starfsemi félagsins á árinu, umhverfisverkefni og mannauðsmál. Einnig er farið yfir stjórnarhætti, skattaspor og öryggismál félagsins en síðast en ekki síst samfélagsverkefni og mikilvægi þess að draga úr kolefnisfótspori félagsins. Í skýrslunni er ítarlegt umhverfisuppgjör sem unnið er úr umhverfisstjórnunarkerfi félagsins.

Samfélagsskýrsla Brims fyrir árið 2019 er nú aðgengileg á rafrænu formi með því að smella á hnappinn hér fyrir ofan.


Samfélagsábyrgð

Ábyrgð félagsins gagnvart samfélaginu er margþætt þegar kemur að heilbrigðum og sjálfbærum rekstri. Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar, öryggi starfsfólks og fullnýting afla hefur borið hæst þegar kemur að samfélagsábyrgð félagsins.

Bætt umgengni við auðlindir og lífríki sjávar eru grundvallargildi í allri starfsemi Brims. Virðing fyrir umhverfinu auk öryggis og líðan starfsfólks eru helstu áherslur félagsins þegar kemur að ófjárhagslegum þáttum í rekstri þess. Þetta er gert svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta sem og nýta þá miklu auðlind sem ríki hafsins er. Þar eru ábyrgar fiskveiðar og rekjanleiki gríðarlega mikilvægur þáttur og fer Brim eftir öllum þeim reglum og samþykktum sem gilda um veiðar í hinu alþjóðlega samfélagi.

Stefna Brims er að leita allra leiða til að minnka mengun frá eigin starfsemi. Margt hefur verið gert í þeim tilgangi að kortleggja kolefnisfótspor félagsins og hvaða leiðir séu bestar til að draga úr fótsporinu. Þá er sífelld þróun innan fyrirtækisins í endurvinnslu sorps og að minnka mengun og hefur Brim orðið vel ágengt í þeim efnum með því að nýta sér nýjustu tækni og ýmsar umhverfisvænar lausnir. Þá er innra eftirlit félagsins öflugt og hægt að fylgjast stafrænt með flokkun úrgangs. Á því sviði á sér stað mikil þróun til að hægt sé að gera enn betur.

Flutningur sjávarafurða félagsins á erlenda markaði er einn af stóru þáttunum í rekstri Brims og er hann í ár færður í fyrsta skipti í umhverfisuppgjör félagsins. Á árinu hefur verið unnið markvisst að því að greina kolefnisfótspor vegna flutnings á ferskum og frystum botnfiskafurðum til kaupenda á erlendum mörkuðum og má sjá þær niðurstöður í samfélagsskýrslu ársins.

Mannauður er kjölfestan í allri starfsemi Brims og jafnframt meginauðlind þess. Félagið er stolt af framlagi sínu til samfélagsins og þeirri félagslegu uppbyggingu sem þar á sér stað. Brim virðir almenn mannréttindi, rétt til félagafrelsis og kjarasamninga.

Brim leggur mikla áherslu á vellíðan og heilbrigði starfsfólks. Félagið er fjölskylduvænn vinnustaður og leggur áherslu á gott vinnuumhverfi, öryggi og jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

  • Brim hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir árið 2019 sem umhverfisfyrirtæki ársins.
  • Brim gerðist einn af bakhjörlum Hátíðar hafsins ásamt Faxaflóahöfnum og Sjómannadagsráði.
  • Olíunotkun félagsins hefur dregist saman frá árinu 2005 um 46%. Olíunotkun skipa hefur dregist saman um 35% og olíunotkun fiskmjölsverksmiðja um 95%.
  • Skattaspor samstæðunnar felur í sér allar greiðslur sem félögin greiða til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða, auk skatta sem innheimtir eru fyrir hönd yfirvalda og skilað til þeirra. Skattaspor samstæðunnar nam samtals 7.585 milljónum króna á árinu 2019.
  • Unnið hefur verið samkvæmt öryggisstefnu Brims og öll slys skráð rafrænt í slysaskráningarkerfi félagsins.
  • Öryggisdagur Brims var haldinn í nóvember 2019.
  • Nýjar og öflugar landtengingar við rafmagn og heitt vatn, við höfnina í Reykjavík, hafa verið teknar í notkun og nú geta allir ísfisktogarar félagsins tengst umhverfisvænni orku þegar þeir liggja við bryggju.
  • Mikill árangur hefur náðst í sorpflokkun síðustu ár og var hlutfall flokkaðs sorps á árinu 79%.
  • Snjallgámar og snjallvogir hafa verið í notkun á öllum starfsstöðvum félagsins undanfarin ár og er upplýsingum um sorpflokkun félagsins streymt beint inn í umhverfisstjórnunarkerfi Brims.
  • Notast er við rafrænt olíustýringarkerfi þar sem hægt er að fylgjast með olíunotkun og umhverfisáhrifum skipaflotans.
  • Brim og Norðanfiskur, ásamt Íslenska gámafélaginu og Samskipum, undirrituðu yfirlýsingu um endurvinnslu og útflutning á frauðplasti. Nú fer þessi úrgangur til endurvinnslu erlendis þar sem efnið verður nýtt til þess að framleiða mynda- og speglaramma.
  • Samgöngustyrkjum Brims til starfsfólks hefur fjölgað um 30% frá 2017. Markmiðið með samgöngustyrkjunum er að hvetja starfsfólk til að nota vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta.
  • Brim hlaut jafnlaunavottun á árinu.
  • Brim var talið framúrskarandi fyrirtæki af Creditinfo árið 2019, tíunda árið í röð.

Nánari umfjöllun má finna í samfélagsskýrslu Brims fyrir árið 2019.

Áhugavert að vita!
Hlutfall skipaflutninga af heildarútfluttu magni botnfiskafurða félagsins á árinu var um 23.385 tonn eða 95% og losaði það 1.405 tonn af CO2 ígildum, sem er um 34,3% af heildarlosuninni. Hlutfall flutninga með flugi var á sama tíma 1.343 tonn af afurðum eða 5% af heildinni og losaði það 2.697 tonn af CO2 ígildum eða 65,7% af heildarútfluttu magni félagsins.