Í lok árs voru sex togarar í rekstri félagsins á botnfisksviði: Frystitogararnir Höfrungur III AK, Örfirisey RE og Vigri RE, sem tilheyrir Ögurvík ehf. dótturfyrirtæki Brims, og ísfisktogararnir Akurey AK, Helga María AK og Viðey RE.
Ísfisktogaranum Helgu Maríu AK var lagt í byrjun árs og í kjölfarið var hann leigður til grænlensku hafrannsóknarstofnunarinnar til rannsóknarleiðangurs í þrjá mánuði, frá júní til ágústloka.
Heildarafli togara var 50.788 tonn en var 47.134 tonn árið 2018. Afli á úthaldsdag var 29,5 tonn en 29 tonn árið 2018.
Í byrjun júní var ísfisktogarinn Engey RE afhentur nýjum kaupendum í Rússlandi, Murmansk Trawl Fleet. Engey RE er systurskip tveggja skipa í rekstri félagsins, Akureyjar AK og Viðeyjar RE, og voru öll skipin smíðuð í Tyrklandi.
Þegar Helga María AK lauk sínu verkefni fyrir grænlensku hafrannsóknarstofnunina í lok sumars, var hún tekin aftur inn í rekstur félagsins og fór sína fyrstu veiðiferð á haustmánuðum.
2019 | 2018 | |||
---|---|---|---|---|
Afli (tonn) | Verðmæti (þús.evra) | Afli (tonn) | Verðmæti (þús.evra) | |
Ísfisktogarar | 22.410 | 33.440 | 29.302 | 35.417 |
Akurey | 7.778 | 11.627 | 7.054 | 8.559 |
Engey | 3.181 | 4.619 | 7.386 | 8.914 |
Viðey | 8.836 | 13.377 | 4.636 | 5.586 |
Ottó N Þorláksson | 0 | 0 | 3.125 | 3.751 |
Sturlaugur H Böðvarsson | 0 | 0 | 424 | 628 |
Helga María | 2.615 | 3.817 | 6.677 | 7.979 |
Frystitogarar | 28.378 | 71.518 | 17.832 | 36.274 |
Örfirisey | 10.210 | 26.286 | 9.047 | 18.717 |
Vigri | 9.868 | 24.592 | ||
Höfrungur III | 8.300 | 20.640 | 8.785 | 17.557 |
Samtals | 50.788 | 104.958 | 47.134 | 71.691 |
Tegund | Þorskur Barentshafi | Þorskur | Ýsa | Ufsi | Gullkarfi | Djúp- karfi | Úthafs- karfi | Grálúða | Aðrar tegundir |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Staða 31.12.2018 | 9.654 | 2.359 | 7.244 | 7.204 | 3.077 | 34 | 1.709 | 2.650 | |
Úthlutun | 2.128 | 15.544 | 2.666 | 12.823 | 10.467 | 3.411 | 629 | 1.318 | 3.594 |
Skipti, frá öðrum/(til annarra) | 250 | 29 | (93) | 1.151 | (870) | 106 | (409) | 597 | |
Tegundatilfærsla | 559 | (48) | 1.003 | (1.037) | 7 | (987) | |||
*Annað | 598 | 136 | 31 | 37 | (7) | (627) | (547) | 56 | (538) |
Samtals | 2.976 | 25.363 | 5.522 | 21.207 | 17.797 | 4.930 | 116 | 2.681 | 5.316 |
Veiði 2019 | (2.976) | (14.593) | (3.903) | (10.985) | (11.909) | (3.178) | (85) | (902) | (2.258) |
Staða 31.12.2019 | 0 | 10.770 | 1.619 | 10.222 | 5.888 | 1.752 | 31 | 1.779 | 3.058 |
*Annað er skiptipottar, leiðrétting vegna íss, utankvótategundir, geymslur, vs-afli, undirmál og heimildir sem falla niður.
Afli til vinnslu á árinu 2019 var 22.800 tonn en var árið á undan 28.500 tonn. Lækkunin um tæp 6.000 tonn skýrist af minni ufsa- og karfavinnslu.
Litlar breytingar voru á botnfiskvinnslu félagsins í Reykjavík á árinu. Undirbúningsvinna hófst af krafti fyrir framkvæmdir vegna endurbóta á vinnslunni á næstkomandi sumri en þá verða sett upp hátækni vinnslubúnaður og hugbúnaðarlausnir fyrir nýja botnfiskvinnslu. Í framhaldinu verður botnfiskvinnsla félagsins ein sú fullkomnasta á heimsvísu.
Félagið var með botnfiskvinnslu á Vopnafirði um vorið og fram á sumar. Unnið var við frystingu á grásleppu og grálúðu en engin þorskvinnsla var á árinu. Áfram er stefnt að því að hafa starfsemi á Vopnafirði á milli vertíða en verið er að skoða hvaða starfsemi fellur best að þeirri vertíðarbundnu vinnslu sem fyrir er.
2019 | 2018 | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
Norðurgarður | Vopnafjörður | Samtals | Norðurgarður | Vopnafjörður | Samtals | |
Þorskur | 11.844 | 11.844 | 9.967 | 907 | 10.874 | |
Ufsi | 4.981 | 4.981 | 8.347 | 35 | 8.382 | |
Karfi | 5.933 | 5.933 | 9.244 | 9.244 | ||
Samtals | 22.758 | 0 | 22.758 | 27.558 | 942 | 28.500 |
Brim gerði út tvö uppsjávarskip á árinu og var útgerðarmynstur þeirra svipað og árið 2018 að því undanskildu að ekki var haldið til loðnuveiða þetta árið. Heildarafli skipanna var 31.225 tonnum minni árið 2019 en 2018 eða 88.725 tonn samanborið við 119.950 tonn árið áður og munaði þar mestu um loðnubrest.
Makrílveiðar hófust í júlí, líkt og fyrri ár, og lauk þeim í september. Allur aflinn var veiddur af uppsjávarskipum félagsins og honum landað á Vopnafirði. Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum hófust í september og lauk í október.
Veiðar á íslenskri síld fóru alfarið fram yfir sumartímann með makrílveiðum.
Kolmunnaveiðar hófust í febrúar og stóðu út maímánuð. Í nóvember var svo haldið til kolmunnaveiða á ný og landað úr síðustu veiðiferðunum um miðjan desember.
2019 | 2018 | |||
---|---|---|---|---|
Afli (tonn) | Verðmæti (þús.evra) | Afli (tonn) | Verðmæti (þús.evra) | |
Venus | 47.279 | 12.221 | 59.087 | 13.611 |
Víkingur | 41.446 | 10.461 | 60.863 | 13.914 |
Samtals | 88.725 | 22.682 | 119.950 | 27.525 |
Tegund | Loðna | Síld | NÍ-síld | Makríll | Kolmunni | Aðrar tegundir |
---|---|---|---|---|---|---|
Staða 31.12.2018 | 0 | 141 | 58 | 940 | 8.721 | 0 |
Úthlutun | 0 | 3.632 | 13.648 | 18.764 | 47.456 | 0 |
Skipti, frá öðrum/(til annarra) | 0 | (145) | 0 | 1.272 | (1.000) | 0 |
*Annað | 0 | 200 | 316 | 554 | 1.052 | 11 |
Samtals | 0 | 3.828 | 14.022 | 21.530 | 56.229 | 11 |
Veiði 2019 | 0 | (923) | (15.888) | (18.591) | (53.311) | (11) |
Staða 31.12.2019 | 0 | 2.905 | (1.866) | 2.939 | 2.918 | 0 |
*Annað er skiptipottar, leiðrétting vegna íss, utankvótategundir, geymslur, undirmál og heimildir sem falla niður.
Landvinnsla félagsins á Vopnafirði gekk ágætlega á árinu 2019 þó veigamikinn þátt hafi vantað í vinnsluna vegna loðnubrests. Unnin var grásleppa frá mars og fram á sumarvertíð auk þess sem gerðar voru tilraunir með landfrystingu grálúðu frá netabátum. Vinnsla á makríl gekk mjög vel og voru markaðsaðstæður hagkvæmar. Um haustið tók við vinnsla á norsk-íslenskri síld og var hún að mestu unnin í samflök fyrir Austur-Evrópu. Markaðurinn fyrir síld var frekar erfiður hluta af árinu en tók vel við sér í lok ársins.
2019 | 2018 | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
Akranes | Vopnafjörður | Samtals | Akranes | Vopnafjörður | Samtals | |
Loðna | 0 | 10.028 | 24.706 | 34.734 | ||
Síld | 8.948 | 8.948 | 10.652 | 10.652 | ||
Makríll | 6.785 | 6.785 | 8.998 | 8.998 | ||
Kolmunni | 55.392 | 55.392 | 2.590 | 51.344 | 53.934 | |
Annað | 4.172 | 16 | 4.188 | 7.040 | 6 | 7.046 |
4.172 | 71.141 | 75.313 | 19.658 | 95.706 | 115.364 |
2019 | 2018 | |||||
---|---|---|---|---|---|---|
Akranes | Vopnafjörður | Samtals | Akranes | Vopnafjörður | Samtals | |
Loðna fryst | 0 | 2.300 | 2.300 | |||
Loðnuhrogn | 0 | 1.304 | 1.304 | |||
Síld | 7.602 | 7.602 | 5.124 | 5.124 | ||
Makríll | 11.392 | 11.392 | 9.574 | 9.574 | ||
0 | 18.994 | 18.994 | 1.304 | 16.998 | 18.302 |
Stefna Brims er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu og sölu- og markaðsstarfsemi sem skilar eigendum félagsins arði og starfsfólki eftirsóknarverðu starfsumhverfi. Verkefni markaðs- og sölusviða er að grandskoða þá þætti virðiskeðjunnar sem lýtur að markaðssetningu, dreifingu og sölu sjávarafurða með það að leiðarljósi á hámarka verðmætin til lengri tíma litið.
Áherslubreytingar urðu á árinu 2019 í markaðs- og sölumálum þegar Brim keypti þrjú sölufélög í Asíu. Var það annars vegar liður í sókn félagsins á áhugaverða markaði og hins vegar að selja vörur félagsins sem mest milliliðalaust og komast eins nálægt neytanda vörunnar eins og kostur er.
Markaðs- og sölustarf félagsins fer fram í félaginu sjálfu á Íslandi og í dótturfélögum heima og erlendis.
Áhersla er lögð á að selja vörur milliliðalaust til viðskiptavina á erlendri grundu. Víðtæk þekking á allri virðiskeðjunni, allt frá veiðum til markaða, er mikilvæg, svo hægt sé að samræma fjölbreytt vöruframboð við kröfur kaupenda og neytenda.
Viðskiptavinir félagsins eru flestir dreifiaðilar eða framleiðslufyrirtæki og eru neytendavörur bæði seldar á veitingamarkaði og í smásölu undir vörumerkjum kaupenda eða smásala. Uppbygging langtíma viðskiptasambanda er mikilvægur hluti af markaðsnálgun félagsins og við val viðskiptavina er lögð áhersla á náið samstarf og aðgang að markaði sem hentar framleiðsluvörum Brims.
Árið 2019 voru afurðir seldar til 32 landa en salan til þeirra 10 stærstu nam um 85% af söluverðmætunum. Mikilvægustu markaðir ársins 2019 voru Frakkland, Bretland, Noregur, Pólland og Japan. Um 55% af heildarsöluverðmætum félagsins á árinu 2019 eru vegna sölu til þessara fimm markaða. Rússlandsmarkaður, sem verið hefur mikilvægur markaður fyrir afurðir félagsins, hefur verið lokaður síðan í ágúst 2015 vegna banns á innflutningi matvæla frá Íslandi.
Brim heldur úti vefsíðu þar sem birtast reglulega fréttir af starfsemi félagsins, á íslensku og ensku, sem einnig er miðlað í gegnum samfélagsmiðla á vegum félagsins. Félagið gefur út ýmsa kynningarbæklinga þar sem framleiðsluafurðir þess eru kynntar ásamt því að fréttum af starfsemi félagsins er komið á framfæri, bæði á íslensku og ensku. Árlega hefur Brim verið með veglegan sýningarbás á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Brussel sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Jafnframt er félagið þátttakandi í öðrum mikilvægum sýningum, s.s. alþjóðlegu sjávarútvegssýningunum í Boston og Qingdao.
Brim framleiðir og markaðssetur sínar vörur í eigin umbúðum, undir eigin vörumerki og undir vörumerkjum dótturfélaganna.
Áhersla er lögð á að einfalt sé að eiga viðskipti við Brim og að viðskiptavinir upplifi alltaf góða þjónustu. Reglulega eru þarfir viðskiptavina metnar ásamt upplifun þeirra af bæði vörum og þjónustu Brims. Niðurstöður eru nýttar til að bæta þjónustuna til að unnt sé að sinna viðskiptavinum sem best og eru þær hvatning fyrir starfsfólk til að viðhalda háu þjónustustigi við viðskiptavini.
Brim tekur virkan þátt í samstarfi sem stuðlar að sjálfbærri nýtingu fiskstofna og ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi. Markmiðið með þátttöku Brims er að stuðla að samvinnu um faglega nýtingu fiskstofna innan íslenskrar lögsögu og tryggja markaðsaðgengi.
Áhersla er lögð á samstarf við Ábyrgar fiskveiðar ses. sem stendur fyrir upprunamerki fyrir íslenskar sjávarafurðir og vottun á ábyrgum fiskveiðum Íslendinga, undir merkjum Iceland Responsible Fisheries. Markaðssetning á merkinu er í höndum Íslandsstofu og á Brim fulltrúa í stjórn Ábyrgra fiskveiða ses. og í fagráði sjávarútvegs hjá Íslandsstofu. Brim er jafnframt hluthafi í Icelandic Sustainable Fisheries ehf. sem hefur þann tilgang að afla vottana gagnvart staðli Marine Stewardship Council (MSC). Þátttaka í félaginu veitir aðgang að MSC vottunum fiskstofna við Ísland. Að auki eru fiskmjöls- og lýsisverksmiðjur Brims IFFO RS vottaðar sem vottar sjálfbæran uppruna fiskmjöls- og lýsisafurða. Brim er enn fremur bakhjarl samtakanna Global Sustainable Seafood Initiative (GSSI). Markmiðið með starfsemi GSSI er að auka gagnsæi í vottunum um sjálfbærni í sjávarútvegi og fiskeldi.
Félagið er með vottuð gæðakerfi samkvæmt staðli IFS Food (International Featured Standards), FEMAS (Feed Material Assurance Scheme) og HACCP (Hazard Analysis and Critical Control Points). Markmiðið með vottun gæðakerfa er að staðla verkferla og fá staðfestingu óháðra aðila á að þeim sé fylgt. Gæðakerfi eru einnig leið til stöðugra umbóta og tryggir vottun þeirra markaðsaðgengi á tiltekna markaði og markaðshluta. Ávinningur af vottuðum gæðakerfum er því bæði markaðslegur og rekstrarlegur.
Markmið starfskjarastefnu félagsins er að störf hjá félaginu séu eftirsóknarverður kostur fyrir hæft starfsfólk og tryggi þannig félaginu stöðu í fremstu röð sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi. Til að vinna að þessu markmiði er nauðsynlegt að félagið bjóði samkeppnishæf laun.
Á árinu 2019 voru að meðaltali 798 stöðugildi hjá samstæðunni miðað við heilsársstörf en 773 á árinu 2018 og hefur þeim því fjölgað um 3% í heild á milli ára. Þar af voru 275 stöðugildi á sjó en 207 á árinu 2018. Fjölgunina, um 32%, má rekja til þess að frystitogarinn Vigri kom inn í rekstur samstæðunnar á árinu 2019. Á landi voru stöðugildin að meðaltali 523 á árinu 2019 en 566 stöðugildi að meðaltali á árinu 2018 sem er fækkun um 8% á milli ára. Launagreiðslur samstæðunnar 2019 voru samtals 63,6 m€ og launatengd gjöld samtals 13 m€.
Félagið virðir gildandi kjarasamninga og önnur lögbundin réttindi starfsmanna meðal annars til orlofs, fæðingarorlofs, launa vegna óvinnufærni, vegna veikinda eða slysa auk annarra réttinda sem kveðið er á um í gildandi kjarasamningum á hverju starfssvæði félagsins.
Langflestir starfsmenn félagsins taka laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga. Starfsmenn í fiskvinnslu fá greiddan bónus þegar unnið er með hráefni á vinnslulínum sem byggir á ákvæðum kjarasamninga. Ekkert kaupaukakerfi er í gangi á öðrum stöðum innan félagsins. Sjómenn taka laun samkvæmt hlutaskiptakerfi sem byggir á kjarasamningum. Launakerfi sjómanna byggir í grunninn á aflaverðmæti viðkomandi skips og skiptist verðmætið á milli útgerðar og áhafnar eftir hlutaskiptakerfi. Langflestir starfsmenn félagsins eru í stéttarfélagi eða um 97% þeirra.
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Félagið lauk við jafnlaunavottun í mars 2019 en jafnlaunakerfi félagsins var tekið út af fulltrúa BSI á Íslandi sem er faggiltur vottunaraðili til að taka út skilyrði ÍST 85:2012 jafnlaunastaðalsins. Úttektin gekk vel en hér var um að ræða fyrstu skref við innleiðingu jafnlaunakerfis félagsins og er unnið að því að innleiða efni þess enn frekar.
Félagið vinnur að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og hluti af þeirri vinnu er að kynbundinn launamunur sé innan við 5%. Þegar litið er til heildarlauna og tekið tillit til helstu þátta sem hafa áhrif á laun þá eru konur með um 2% lægri laun en karlar miðað við úttekt í mars 2019. Það hallar því á konur, en unnið er að því að enginn launamunur verði á milli kynja.
Félagið hefur sett sér siðareglur varðandi mannréttindi, spillingu og mútur. Lögð er áherslu á að fara alltaf að lögum og almennum viðmiðum um siðferði í viðskiptum og fylgja þeim reglum sem félagið setur á hverjum tíma. Mannréttindi eru virt og sérstaklega gætt að því að virða mannréttindi sem fjalla um félagafrelsi, nauðungar- og þrælkunarvinnu og misrétti á vinnustöðum.
Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar þeirra fari að lögum í landinu er varða alla þá sem eru að starfa fyrir þá, sama hvort það eru þeirra launþegar eða eigin undirverktakar.
Einelti eða kynferðisleg áreitni eru ekki liðin hjá félaginu. Til er aðgerðaáætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti eða áreitni á vinnustað og var hún endurskoðuð á árinu. Öllum skal sýnd virðing og óréttlæti er ekki liðið s.s. einelti, kynferðisleg áreitni eða mismunun vegna ómálefnalegra þátta eins og kynferðis, trúar, kynþáttar eða kynhneigðar. Verði starfsmenn varir við einelti eða óréttlæti ber þeim að upplýsa yfirmenn sína um það samstundis.
Félagið leggur áherslu á að stjórnendum og starfsmönnum sé annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsmanna sinna. Brim er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem leitast er við að hafa gott vinnuskipulag til að skapa jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Félagið leggur áherslu á gott vinnuumhverfi, öryggi og góðan aðbúnað starfsmanna þar sem starfsmönnum félagsins stendur meðal annars til boða heilsufarsskoðun sér að kostnaðarlausu.
Öryggisnefndir eru starfandi hjá félaginu og taka til allra starfsstöðva þess, skv. reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, nr. 920/2006. Öryggismál eru hluti af starfsmannastefnu félagsins og lögð er áhersla á að starfsmenn fylgi öryggisreglum á vinnustað, taki þátt í öryggisfræðslu og bendi á það sem betur megi fara í öryggismálum.
Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð á eigin öryggi. Ein af grunnforsendum þess að félaginu takist vel til á þeirri vegferð að fækka slysum, er að allir axli ábyrgð og að allir, stjórnendur og starfsmenn, einsetji sér að vinna að bættu öryggi. Stjórnendur bera ábyrgð á að búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnusvæðum og starfsstöðvum sem þeir bera ábyrgð á og hafa umsjón með.
Félagið byggir vinnuverndarstarfið á því að stjórnendur gangi á undan með góðu fordæmi. Samræmdar öryggisreglur eru reglulega uppfærðar og kynntar starfsmönnum, ásamt því að unnið er að markvissri þjálfun og fræðslu fyrir stjórnendur og starfsmenn. Öryggismálin eru fyrst og fremst á ábyrgð stjórnenda en starfsmenn bera ábyrgð á sínu eigin öryggi og eiga að láta vita um það sem betur má fara. Hjá félaginu eru starfandi öryggisnefndir á öllum starfsstöðvum þess. Hafa nefndirnar skýrt hlutverk sem felst m.a. í því að fylgjast með og yfirfara öryggi og vinnuumhverfi starfsmanna til sjós og lands, þar með talið að rýna reglulega slys eða önnur atvik sem varða starfsumhverfi starfsmanna. Mikilvægt er að nefndirnar séu virkar og fái þann stuðning sem þarf.
Mannauðssvið heldur utan um slysaskráningarkerfið og fylgir eftir að stjórnendur og öryggisnefndir sinni sínu hlutverki og haldi vel utan um fundargerðir sínar.
Aðalfundur 2019 samþykkti starfskjarastefnu fyrir félagið. Markmið starfskjarastefnu félagsins er að störf hjá félaginu séu eftirsóknarverður kostur fyrir hæft starfsfólk og tryggi þannig félaginu stöðu í fremstu röð sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi.
Vignir G. Jónsson ehf. sérhæfir sig í fullvinnslu á hrognum og er einn stærsti einstaki kaupandi grásleppu- og þorskhrogna á landinu.
Rekstrartekjur á árinu voru 18,8 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 2,4 m€. Heildareignir í árslok námu 15,1 m€ en eigið fé var 10,8 m€ eða 72%.
Brim á 100% eignarhlut í Vigni G. Jónssyni ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 16,6 m€ í árslok 2019. Áhrif félagsins á rekstur samstæðunnar voru jákvæð um 2,4 m€.
Norðanfiskur ehf. framleiðir fiskafurðir fyrir neytenda- og stóreldhúsamarkað innanlands.
Rekstrartekjur á árinu voru 11,0 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 0,2 m€. Heildareignir í árslok námu 3,6 m€ en eigið fé var 0,8 m€ eða 23%.
Brim á 100% eignarhlut í Norðanfiski ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 1,8 m€ í árslok 2019.
Ögurvík ehf. gerir út frystitogarann Vigra RE.
Rekstrartekjur á árinu voru 26,7 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 5,9 m€. Heildareignir í árslok námu 33,7 m€ en eigið fé var 14,2 m€ eða 42%.
Brim á 100% eignarhlut í Ögurvík ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 95,4 m€.
Samhliða kaupum Brims á sölufélögum í Asíu var eignarhlutur í Seafood Services ehf. keyptur af Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf.
Rekstrartekjur á tímabilinu 1. október til 31. desember voru 0,7 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 0,2 m€. Heildareignir í árslok námu 1,2 m€ en eigið fé var 1,0 m€ eða 82%.
Brim á 100% eignarhlut í Seafood Services ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 1,7 m€.
Gjörvi ehf. sérhæfir sig í alhliða viðhaldsþjónustu til skipa og véla- og smíðavinnu, ásamt tengdri þjónustu, bæði til innlendra og erlendra aðila.
Rekstrartekjur á árinu voru 0,4 m€. Tap af rekstrinum nam 0,05 m€. Heildareignir í árslok námu 0,2 m€ en eigið fé var neikvætt um 0,1 m€.
Brim á 100% eignarhlut í Gjörva ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 0,07 m€ í árslok 2019.
Á árinu var gengið frá kaupum á þremur sölufélögum í Asíu: Icelandic Japan KK, Icelandic China Trading Co. Ltd. og Icelandic Hong Kong Ltd.
Samanlagðar rekstrartekjur félaganna á tímabilinu 1. október til 31. desember voru 34,7 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 0,6 m€. Heildareignir í árslok námu 44,5 m€ en eigið fé var 14,0 m€.
Brim á 100% eignarhlut í félögunum og nam bókfært verð eignarhlutanna 29,3 m€.
Brim á 20% hlut í eignarhaldsfélaginu Deris S.A. í Síle. Deris á sjávarútvegsfélögin Friosur og Pesca Chile. Félögin gera út tvo frystitogara, tvö línuskip sem frysta aflann, þrjá ísfisktogara og eitt skip til ljósátuveiða. Auk þess rekur það eitt fiskiðjuver.
Tap af rekstri Deris árið 2019 var 9,6 m€. Áhrif félagsins á rekstur Brims voru neikvæð um 1,9 m€. Bókfært verð eignar Brims var 35,3 m€ í árslok 2019.
Laugafiskur ehf. rekur fiskþurrkun á Reykjanesi og selur afurðir sínar til erlendra viðskiptavina.
Brim á 33,3% eignarhlut í félaginu á móti Skinney-Þinganes hf. og Nesfiski ehf.
Hagnaður af rekstri Laugafisks ehf. árið 2019 var 1,1 m€. Áhrif félagsins á rekstur Brims voru jákvæð um 0,4 m€. Bókfært verð eignar Brims var 4,1 m€ í árslok 2019.
Marine Collagen ehf. hefur unnið að undirbúningi og uppsetningu verksmiðju í Grindavík þar sem framleitt verður gelatín og kollagen. Gert er ráð fyrir að rekstur hefjist á árinu 2020.
Brim lauk, ásamt öðrum hluthöfum, hlutafjáraukningu á árinu. Bókfært verð eignar Brims var 1,0 m€. Aðrir hluthafar eru Samherji hf., Vísir hf. og Þorbjörn hf., hver með 25% eignarhlut í félaginu.