Rekstur Brims á árinu 2019 var góður og rekstrarafkoma ásættanleg. Félagið er í dag fjárhagslega sterkt sem er mikilvægt í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir vegna útbreiðslu áður óþekktrar veiru sem ógnar nú í upphafi árs 2020 lífi fólks um allan heim og efnahag. Brim hefur burði til að takast á við óvissuna með starfsfólki félagsins, samstarfsfólki og viðskiptavinum.
Á árinu 2019 var ytra umhverfi hagstætt á ýmsan hátt þrátt fyrir loðnubrest. Heildarafli botnfisktogara félagsins jókst frá árinu á undan, sömuleiðis afli á úthaldsdag en mestu skiptir að verðmæti botnfiskafla jókst verulega á milli ára. Botnfiskvinnsla í landi dróst saman einkum á karfa og ufsa en framundan eru miklar umbætur á því sviði. Fyrirtækið hefur fjárfest í hátæknibúnaði og hugbúnaðarlausnum en verið er að reisa eina fullkomnustu snjallvinnslu á heimsvísu í sjávarútvegi að Norðurgarði í Reykjavík.
Áherslubreytingar urðu á árinu í markaðs- og sölumálum þegar Brim keypti þrjú sölufélög í Asíu. Var það annars vegar liður í sókn félagsins á áhugaverða markaði og hins vegar að selja vörur félagsins sem mest milliliðalaust og komast eins nálægt neytenda vörunnar og kostur er.
Tekjur Brims jukust verulega á árinu og sömuleiðis hagnaður og var því afkoman góð. Ljóst er að þær breytingar sem orðið hafa á félaginu á undanförnum misserum hafa skilað sér í betri afkomu og sterkari fjárhagslegri stöðu. Kemur það sér nú vel í þeirri óvissu sem er framundan á heimsmörkuðum.
Brim er sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Hlutverk okkar er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti og arðsemi aflaheimilda félagsins. Við viljum gera út fengsæl fiskiskip, vinna aflann með nýjasta tæknibúnaði sem völ er á og hafa á að skipa öflugu starfsfólki með mikla kunnáttu á sviði sjávarútvegs sem vel er hlúð að á allan hátt. Virðing fyrir náttúrunni og lífríki sjávar er grundvallargildi í allri starfsemi félagsins. Bætt umgengni við auðlindir og umhverfi og fullnýting afla auk öryggis starfsfólks, eru helstu áherslur félagsins þegar kemur að ófjárhagslegum þáttum í rekstri þess. Það var ánægjulegt að eftir þessum metnaði félagsins var tekið þegar félagið var útnefnt af Samtökum atvinnulífsins sem Umhverfisfyrirtæki ársins á Íslandi árið 2019.
Ég vil þakka öllu starfsfólki Brims bæði í landi og á sjó, heima og erlendis, fyrir afskaplega vel unnin störf á árinu 2019. Viðskiptavinum, samherjum og stjórn félagsins vil ég þakka samstarfið.