Framtíðarsýn
Félagið starfar í fullri sátt við náttúru og umhverfi og stígur fram af ábyrgð með það að markmiði að tryggja trausta atvinnu og byggð á Íslandi
Guðmundur Kristjánsson
forstjóri Brims

Við sem störfum hjá Brimi vitum að duttlungar náttúrunnar geta auðveldlega rutt úr vegi góðum ásetningi eða fögrum áformum. Á árinu 2020 erum við minnt eina ferðina enn á ofurafl náttúrunnar þegar við stöndum óvænt andspænis veiru sem við þekkjum ekki en er að hafa gríðarleg áhrif á okkar daglega líf og efnahag. Engar áætlanir eða spár sáu þennan óvætt fyrir og engar kjarnorkusprengjur eða stjörnustríðstól fá honum grandað. Við hjá Brimi mætum þessum aðstæðum af auðmýkt en með fullri trú á styrk okkar og getu til að takast á við vandann og þær nýju aðstæður sem taka við.

Brim er sjávarútvegsfyrirtæki í fremstu röð. Hlutverk okkar er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti og arðsemi aflaheimilda félagsins. Stefna Brims er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu og sölustarfsemi sem skilar eigendum arði og starfsfólki eftirsóknarverðu starfsumhverfi. Félagið starfar í fullri sátt við náttúru og umhverfi og stígur fram af ábyrgð með það að markmiði að tryggja trausta atvinnu og byggð á Íslandi.

Horft til framtíðar þá eru þrír þættir sem ráða mestu um að Brim geti gegnt hlutverki sínu. Í fyrsta lagi að sú umgjörð sem stjórnvöld setja félaginu sé fyrirsjáanleg og traust þannig að fyrirtækið í ljósi þekkingar á náttúru, tækni og mörkuðum geti gert áætlanir til lengri tíma. Í öðru lagi að félagið hafi fjármagn til framkvæmda sem verður til við arðsaman rekstur. Í þriðja lagi að hjá félaginu starfi hæft fólk með þekkingu og reynslu á sjávarútvegi.

Þar sem fyrirtækið vill starfa í fullri sátt við náttúru og umhverfi er mikilvægt að þekking á lífríki sjávar sé eins mikil og kostur er. Við stöndum frammi fyrir hröðum breytingum á lífríki sjávar þar sem sjórinn allt um kring hefur súrnað hraðar frá aldamótum en í árþúsund þar á undan. Augljóst er að þekkingar þarf að afla hratt á hvaða áhrif þessar breytingar hafa á fiskistofna í lögsögu Íslands. Það er hluti af framtíðarsýn Brims að taka þátt og styðja við slíka þekkingaröflun þar sem grundvöllur að allri starfsemi félagsins er í húfi. Til þess að geta nýtt auðlindina í sjónum á sjálfbæran hátt þurfum við sífellt að afla þekkingar á henni því hún, líkt og annað í náttúrunni, verður aldrei fullkönnuð og hún hættir aldrei að koma okkur á óvart.